Skoðun

Kosið um ál­ver og stjórn­laga­þing?

Aukin framleiðsluaukning og nýjar fjárfestingar álversins í Straumsvík hafa nýlega verið kynntar og er sannarlega um að ræða góðar fréttir fyrir íslenskt atvinnu- og efnahagslíf. Rúmlega 600 ný störf verða til á framkvæmdatímanum; einkum fyrir iðnaðarmenn, verkfræðinga, tæknifræðinga og verkafólk. Heildarfjárfesting álversins nemur um 55 milljörðum króna. Þessar staðreyndir munu hafa mikil áhrif og verða dýrmæt innspýting í íslenskt samfélag, ekki síst nú þegar uppbygging í atvinnulífinu er grundvallarforsenda þess að efnhagslífið rétti úr kútnum. Forsvarsmenn álversins segja þessi nýju verkefni og raforkusamninga styrkja álverið og treysta starfsemi þess til framtíðar.

Þeir sem fara með stjórnartaumana í landinu um þessar mundir hafa nú ekki beinlínis skapað bestu aðstæður til atvinnuuppbyggingar eða gert fyrirtækjum í samkeppni auðveldara fyrir að halda velli eða dafna í því árferði sem nú er. Rétt eins og fyrir þremur árum þegar meirihluti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði setti fótinn fyrir stækkunaráform og atvinnuuppbyggingu álversins í Straumsvík með því að skipta um kúrs í miðjum undirbúningi stækkunarinnar og boða til íbúakosningar þar um. Ekki fyrsta dæmið um hin svokölluðu „klækjastjórnmál" Samfylkingarinnar. Það skyldi gert í ljósi mikillar lýðræðisástar bæjaryfirvalda og samþykkta Hafnarfjarðarkaupstaðar sem gerðu ráð fyrir því að íbúar gætu kosið um mikilvæg málefni bæjarfélagsins. Við þekkjum niðurstöðuna úr þeim kosningum, þar sem mjótt var á mununum, en í samþykktum Hafnarfjarðar var einnig gert ráð fyrir að bæjarbúar gætu sjálfir farið fram á íbúakosningu ef tilskilinn fjöldi íbúa væri þar að baki.

Fyrir nokkrum mánuðum bárust bæjaryfirvöldum undirskriftarlistar þúsunda bæjarbúa þar sem farið var fram á að íbúakosningin yrði endurtekin. Skemmst er frá því að segja að undirskriftirnar eru enn á borði bæjarstjóra. Lýðræðinu sem íbúum Hafnarfjarðar er boðið uppá í samþykktum og hátíðarræðum, hefur ekki verið fullnægt. Nú standa kosningar til stjórnlagaþings fyrir dyrum í sveitarfélögum landsins. Við sjálfstæðismenn í bæjarstjórn Hafnarfjarðar höfum lagt til að íbúakosning um deiliskipulag við Straumsvík fari fram um leið. Þar með yrði kröfum þúsunda bæjarbúa svarað og málið afgreitt af hálfu bæjarins. Það verður fróðlegt að fylgjast með hvort meirihlutinn hafi kjark til að samþykkja tillögu okkar sjálfstæðismanna og verða við lýðræðisóskum bæjarbúa.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×