2,6 milljónir gesta heimsóttu Tívolíið í Kaupmannahöfn í Danmörku í sumar. Þetta eru tvö hundruð þúsund færri gestir en komu þangað í fyrrasumar.
Í tilkynningu frá eigendum Tívolísins til dönsku kauphallarinnar kemur fram að veðrið hafi átt mestan þátt í samdrættinum enda hafi vorið verið í kaldara lagi og sumarið vætusamara en í fyrra.
Þar er jafnframt haft eftir Claus Dyhr, fjármálastjóra Tívolísins, að þrátt fyrir samdráttinn hafi hver gestur eytt meiru fé í afþreyingu í garðinum en fyrri ár og vegi það upp fækkun gesta. - jab