Tónlist

Ilmvatn og adrenalín í veganesti

Kynnar Söngkeppni framhaldsskólanna þetta árið eru tónlistarmaðurinn Erpur Eyvindarson og Edda Björg Eyjólfsdóttir leikkona. Þau hlakka til verkefnisins og segja keppnina vera frábæran stökkpall fyrir hæfileikafólk landsins.

Þetta er skemmtilegt og hvetjandi í alla staði," segir Edda. "Það er greinilegt að keppendur eru að nýta sér sköpunargleðina út í ystu æsar. Sum atriðin eru hreint út sagt sýning út af fyrir sig."

Erpur tekur undir þetta og segir að á 20 ára afmælishátíð keppni sem þessarar sé eins gott að það sé eitthvað almennilegt í gangi allt kvöldið. "Þetta er flottur hópur af keppendum og skemmtiatriðin á milli eru heldur ekkert slor," segir hann. "Þetta er svona eins og háskólaboltinn í körfunni í Bandaríkjunum, einn af hápunktum ársins. Svo framleiðir þetta bara stórstjörnur líka, þegar maður lítur á liðið sem er að gera það gott í dag. Svakalega margir sem hafa tekið þátt," segir Erpur.

Edda tók sjálf þátt fyrir hönd MH fyrir mörgum árum. Þó vill hún ekki ljóstra upp smáatriðum um þátttökuna. "Það eina sem ég vil segja er að þetta var góð og gefandi reynsla. En ég held að ég muni standa mig betur sem kynnir heldur en keppandi," segir hún.

Edda hlakkar til að takast á við hlutverk kynnis og segir það skipta sköpum í undirbúningnum að vera á tánum og með allt sitt á hreinu. "Þetta er allt annað en leiklistin. Það er ákveðinn stressfaktor sem fylgir því að vera í beinni útsendingu og þurfa að passa sig á því að koma öllum upplýsingum rétt frá sér. En ég skýt þá bara á Erp til að koma með einhverja limru."

Kynnarnir tveir segja að besta ráðið fyrir keppendur til þess að undirbúa sig sé bara að taka þessu með ró og njóta þess að vera miðpunktur senunnar. "Maður á bara að vera með allt sitt á hreinu og leyfa adrenalíninu að vinna með sér," segir Erpur. Edda gefur keppendum einnig þau ráð að setja á sig gott ilmvatn, en umfram allt njóta þess að vera til.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×