Það bíða margir spenntir eftir einvígi Usain Bolt og Asafa Powell í 100 metra hlaupi á Demantamótinu í París á morgun en tveir þeir fljótustu á árinu 2010 mætast þarna í fyrsta sinn á keppnistímabilinu.
Heims og Ólympíumeistarinn Usain Bolt minnti á sig um síðustu helgi þegar hann hljóp á 9,82 sekúndum á móti í Lausanne en það var jafngóður tími og Powell hafði náð best á árinu.
Þetta verður þriðja mót Usain Bolt á árinu 2010 en hann hefur verið að glíma við meiðsli á hásin en segist ekki finna fyrir neinu lengur. Bolt spáir frábæru hlaupi á Stade de France.
„Mitt markmið er að tapa ekki í þessu hlaupi. Ég stefni á það að hlaupa á 9,7 sekúndum. Þetta ætti að verða flott hlaup því ég veit að Asafa er tilbúinn í slaginn," sagði Usain Bolt en báðir kapparnir koma frá Jamaíku.
„Asafa Powell hefur verið mjög stöðugur í ár og hlaupið oft í kringum 9,80. Ég veit að hann bíður eftir mér," sagði Bolt.
Það hefur enginn hlauðið 100 metarana hraðar á Stade de France en Usain Bolt sem vann mótið á 9.79 sekúndum í fyrra. Heimsmet hans frá HM í Berlín á síðasta ári er upp á 9.58 sekúndur.
Tveir þeir fljótustu í ár mætast í fyrsta sinn á árinu 2010
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
