Micah Richards, leikmaður Manchester City, segir félagið ætli að taka Evrópudeild UEFA alvarlega á tímabilinu og gera allt sem í valdi liðsins stendur til að vinna fyrsta titil félagsins í 34 ár.
City mætir Red Bull Salzburg í fyrstu umferð riðlakeppninnar á morgun og segir Richards að liðið ætli sér að standa sig vel í öllum keppnum á tímabilinu.
„Við viljum vinna titla og ég held að við getum staðið okkur vel í Evrópudeildinni. Við höfum fengið marga nýja leikmenn og eigum virkilega góðan möguleika á að vinna keppnina."
City komst í fjórðungsúrslit keppninnar árið 2009, þá undir stjórn Mark Hughes. „Við höfðum ekki mikla reynslu þá af því að spila í Evrópukeppni og margir, eins og ég, að spila í fyrsta sinn á þeim vettvangi."
„Ég lærði margt af því tímabili. Evrópuboltinn er allt öðruvísi en enska úrvalsdeildin - hann er til dæmis mun hægari. Við tókum þátt í erfiðum leikjum þá og það verða einnig erfiðir leikir nú. Til dæmis gegn Juventus á útivelli en við hlökkum allir til þess leiks."