Cesc Fabregas mun ekki spila með Arsenal þegar að liðið mætir Shakhtar Donetsk í Meistaradeild Evrópu í Úkraínu annað kvöld. Fabregas er tognaður í vöðva aftan á læri.
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, sagði meiðslin þó ekki alvarleg og að hann myndi spila með liðinu gegn Newcastle í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn. „Við munum ekki taka neina áhættu enda hefur hann áður glímt við meiðsli af þessum toga," sagði Wenger.
Fabregas hlaut álíka meiðsli í leik gegn Sunderland um miðjan september og var frá í einn mánuð þar til að Arsenal vann 5-1 sigur á Shakhtar á heimavelli fyrir tveimur vikum síðan.
Þeir Alex Song, Andrei Arshavin og Denilson eru allir sagðir tæpir fyrir leikinn á morgun. Ástand þeirra verður metið síðar í dag.
