Fótbolti

Mario Balotelli fær tíuna hjá ítalska landsliðinu á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mario Balotelli.
Mario Balotelli. Mynd/AFP
Mario Balotelli, framherji Manchester City, fær stóra tækfærið með ítalska landsliðinu annað kvöld þegar liðið mætir Rúmeníu í vináttuleik í Klagenfurt í Austurríki. Balotelli verður í byrjunarliðinu og fær treyju númer tíu.

Balotelli verður samkvæmt heimildum ítalska blaðsins Il Corriere dello Sport í framlínunni með þeim Alessandro Diamanti og Giuseppe Rossi en fyrir aftan þá á miðjunni verða síðan Alberto Aquilani, Cristian Ledesma og Stefano Mauri.

Balotelli er nýstiginn upp úr meiðslum en skoraði tvö mörk í síðasta leik sínum með Manchester City sem var á móti West Bromwich Albion. Balotelli fékk einnig rautt spjald í þeim leik og hefur því verið í leikbanni í síðustu tveimur leikjum enska liðsins.

„Ég er að vonast til þess að Mario geti spilað eins vel og hann hefur gert að í Englandi. Hann er kappsfullur og tilbúinn í að sanna sig. Við vitum allir að þetta er mikilvægur tími fyrir hans feril," sagði Cesare Prandelli, þjálfari Ítalíu.

Balotelli skoraði 6 mörk í 14 leikjum með ítalska 21 árs landsliðinu en hann spilaði sinn fyrsta og eina landsleik í 0-1 tapi á móti Fílabeinsströndinni í ágúst.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×