Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefur ekkert viljað tjá sig í dag um það að formaður stjórnmálaflokks í Færeyjum afþakkaði kvöldverðaboð henni til heiðurs - vegna kynhneigðar hennar.
Það var Jenis av Rana, formaður kristilega Miðjuflokksins, sem sagði á færeyskum vefmiðli í gær að hann hygðist ekki mæta til kvöldverðar sem Lögmaður Færeyja boðaði til í kvöld. Hann sagði að heimsókn Jóhönnu og Jónínu eiginkonu hennar væri ögrun.
Ummælin hafa vakið hörð viðbrögð - og Jenis hefur verið húðskammaður í dag, af fyrrverandi lögmanni Færeyinga - núverandi lögmanni og utanríkisráðherra Íslands.