Aldrei stóð til að setja á einnar krónu orkuskatt á hverja kílóvattsstund. Upphæðin var til viðmiðunar til að sjá um hvaða fjárhæðir væri að ræða, að sögn Katrínar Júlíusdóttur iðnaðarráðherra. Hún segir bandaríska sendiráðið hér á landi ekki hafa haft áhrif á að einnar krónu orkuskattur var lækkaður niður í tólf aura.
Sam Watson, sendiráðunautur og staðgengill sendiherra Bandaríkjanna hér, skrifar í bréfi sem hann sendi bandarískum stjórnvöldum ytra í nóvember í fyrra og lekasíðan Wikileaks hefur undir höndum að fyrir hans tilstuðlan hafi tekist að koma í veg fyrir að ríkisstjórnin samþykkti að leggja einnar krónu orkuskatt á hverja kílóvattstund. Álfyrirtækin Alcoa og Century Aluminum voru mótfallin skattinum enda útlit fyrir að hann gæti kostað þau 13,2 milljarða króna á ári og dregið úr arðsemi þeirra hér.
Katrín segir orkuskattinn almennan skatt sem lenti á öllum, svo sem heimilum landsins og garðyrkjubændum. Ekki var hægt að leggja sértækan skatt aðeins á álfyrirtækin. „Álfyrirtækin eru varin fyrir sértækum sköttum í fjárfestingarsamningum,“ segir hún.
„Sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi var enginn gerandi í þessu máli. Þeir gátu haft skoðanir en það breytti engu. Við vorum að meta þetta út frá hagsmunum heildarinnar,“ segir Katrín. - jab
Álfyrirtækin voru varin fyrir hækkun
