Serena Williams fagnaði í dag sigri á Wimbledon-mótinu í tennis í fjórða sinn á ferlinum.
Serena og Venus, systir hennar, hafa nú unnið mótið í níu skipti af síðustu ellefu. Serena vann nú Veru Zvonarevu frá Rússlandi í úrslitaviðureigninni, 6-3 og 6-2.
Serena var ekki nema rúma klukkustund að klára Zvonarevu í dag en hún tapaði ekki setti allt mótið. Hún hefur nú unnið þrettán stórmót á ferlinum.
Á morgun fer fram úrslitaleikurinn í einliðaleik karla en þá mætast Spánverjinn Rafael Nadal, efsti maður heimslistans, og Tékkinn Tomas Berdych.
