Fótbolti

Gæti kostað Inter fúlgu að vinna Meistaradeildina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Wesley Sneijder í leik með Inter.
Wesley Sneijder í leik með Inter. Nordic Photos / AFP
Eftir því sem fram kom í spænskum fjölmiðlum í morgun þarf Inter á Ítalíu að greiða Real Madrid væna fúlgu ef liðinu tekst að vinna Meistaradeild Evrópu annað kvöld.

Spænska blaðið AS heldur því fram að hluti af samkomulagi Inter við Real þegar fyrrnefnda félagið keypti Wesley Sneijder væri að Inter þyrfti að greiða viðbótarupphæð, þrjár milljónir evra, ef félagið ynni Meistaradeild Evrópu þetta tímabilið.

Real seldi Sneijder á fimmtán milljónir evra síðastliðið sumar en úrslitaleikurinn fer einmitt fram á heimavelli Real í Madrídarborg.

Jose Mourinho, stjóri Inter, hefur að undanförnu verið orðaður við Real Madrid og gæti þetta samkomulag greitt fyrir leið hans þangað. Þá var greint frá því í ítölskum fjölmiðlum í vikunni að mögulega gæti Mourinho farið frítt frá Inter í sumar vegna klásúlu í samningi hans sem gerir honum kleift að losna undan samningi sínum ef Inter vinnur Meistaradeildina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×