Fótbolti

Mourinho: Ég mun aldrei þjálfa Barcelona

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jose Mourinho fagnaði vel og innilega eftir leikinn í gær.
Jose Mourinho fagnaði vel og innilega eftir leikinn í gær. Nordic Photos / AFP

Jose Mourinho segist gera sér grein fyrir því að hann muni aldrei taka við liði Barcelona á sínum þjálfaraferli.

Mourinho er nú knattspyrnustjóri Inter sem sló Barcelona úr leik í undanúrslitum Meistaradeildarinnar þrátt fyrir 1-0 tap í leik liðanna í gær. Inter vann fyrri leikinn á sínum heimavelli, 3-1, og þar með samanlagðan 3-2 sigur.

Portúgalski þjálfarinn fagnaði mikið í leikslok, stuðningsmönnum Barcelona til mikillar gremju.

„Ég er ekki það heimskur að ég haldi að þetta hatur muni nokkru sinni breytast í ást," sagði Mourinho eftir leikinn í gær.

Lið undir stjórn Mourinho hafa nú tvívegis slegið Barcelona úr leik í Meistaradeildinni en það gerðist einnig þegar hann var stjóri Chelsea. Fyrir leikinn í gær sagði hann að það væri þráhyggja hjá Barcelona að komast í úrslitaleikinn nú í ár þar sem hann færi fram heimavelli Real Madrid að þessu sinni.

Mourinho var sjálfur á mála hjá Barcelona sem aðstoðarþjálfari, fyrst þegar Bobby Robson stýrði liðinu og svo Louis van Gaal. Sá síðarnefndi er nú stjóri Bayern München sem mætir einmitt Inter í úrslitum Meistaradeildarinnar í ár.

„Ég ber virðingu fyrir Barca og gleymi aldrei hvað félagið gaf mér á þeim fjórum árum sem ég var hér," sagði Mourinho og vildi meina að hann væri nú óvinsælli hjá stuðningsmönnum félagsins en Luis Figo sem á sínum tíma yfirgaf Barcelona og fór til Real Madrid.

Figo var staddur á leiknum í gær sem sérstakur fulltrúi frá Inter. „Figo sagði mér að hann væri sjálfur nokkuð rólegur þar sem ég væri nú orðinn aðalóvinur stuðningsmanna Barca."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×