Knattspyrnustjórinn Arsene Wenger hjá Arsenal var allt annað en sáttur með dómarann Martin Hansson eftir 2-1 tap liðs síns gegn Porto í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar á Dragao-leikvanginum í kvöld.
Wenger telur að dómarinn hafi gert mistök þegar hann dæmdi aukaspyrnu á markvörðinn Lukasz Fabianski fyrir að taka boltann með höndunum eftir að Sol Campbell hafði sent aftur á markvörðinn. Leikmenn Porto tóku aukaspyrnuna snöggt og skoruðu í autt markið.
„Dómarinn gerði hræðileg mistök. Sendingin frá Campbell var ekki viljandi og því mátti Fabianski alveg handsama boltann. Það er fáránlegt að hann hafi dæmt aukaspyrnu á þetta atvik. Eftir það átti dómarinn klárlega að gefa okkur tækifæri á að stilla upp í varnarvegg, sem hann gerði ekki og því fór sem fór," sagði brjálaður Wenger í leikslok.
Wenger telur þó að Arsenal eigi enn góða möguleika á að komast áfram í 8-liða úrslitin.
„Ef maður fær á sig þessi ódýru mörk þá kemst maður ekki neitt áfram en við erum enn í ágætri stöðu eftir að hafa skorað útivallarmarkið. Síðari leikurinn verður mjög spennandi," sagði Wenger.