Gylfi Sigurðsson verður „afar líklega" í byrjunarliði 1899 Hoffenheim í kvöld er liðið mætir Ingolstadt í þýsku bikarkeppninni í kvöld.
Þetta sagði Ralf Rangnick við þýska fjölmiðla í dag. „Gylfi mun mjög líklega spila og þá í byrjunarliðinu," sagði Rangnick.
Gylfi hefur fimm sinnum komið inn á sem varamaður í leikjum Hoffenheim í haust og skorað í þeim tvö mörk, bæði beint úr aukaspyrnum.
Gylfi mun spila í sinni uppáhaldsstöðu í kvöld, sem sóknartengiliður fyrir aftan tvo framherja.
Ingolstadt er nýliði í þýsku B-deildinni og er þar í næstneðsta sæti með fjögur stig eftir níu umferðir.