Þýska liðið Bayer Leverkusen hefur sýnt áhuga á að semja við Michael Ballack sem fær ekki nýjan samning frá enska liðinu Chelsea. Ballack er fyrirliði þýska landsliðsins en missir af HM í Suður-Afríku vegna meiðsla.
„Ég ætla ekki að fara leynt með það að þegar leikmaður eins og Michael Ballack er á markaðnum þá höfum við mikinn áhuga á að fá hann til okkar," sagði Rudi Völler, íþróttastjóri félagsins og fyrrum landsliðsþjálfari Ballack, í viðtali við Express-blaðið.
Michael Ballack lék með Bayer Leverkusen á árunum 1999 til 2002 eða á milli þessa að hann var hjá Kaiserslautern og Bayern Munchen. Árið 2002 náði hann ótrúlegri silfurfernu, varð í öðru sæti í deild, bikar og Meistaradeild með Leverkusen og endaði svo tímabilið á því að verða í öðru sæti á HM með Þýskalandi.
„Michael átti frábæran tíma hérna og við höfum haldið sambandi öll þessi ár. Við erum samt ekki mikið að stressa okkur yfir þessu en Michael Ballack er á okkar radar ekki síst þar sem hann vill snúa aftur til Þýskalands," sagði Völler.
Bayer Leverkusen fær harða samkeppni í baráttunni um Ballack því Wolfsburg og Real Madrid hafa líka sýnt honum áhuga.
