Svíinn Zlatan Ibrahimovic var maðurinn á bak við 3-0 útisigur AC Milan á Bologna í ítölsku deildinni í dag en með honum náði liðið sex stiga forskot á Lazio og Napoli. Lazio á reyndar leik inni seinna í dag.
Zlatan lagði upp tvö fyrstu mörkin, fyrir þá Kevin-Prince Boateng á 9. mínútu og Robinho á 35. mínútu, og skoraði síðan þriðja markið sjálfur á 60. mínútu eftir sendingu frá Andrea Pirlo.
Zlatan Ibrahimovic hefur átt beinan þátt í 18 mörkum AC Milan á tímabilinu en hann hefur skorað 9 mörk og gefið 9 stoðsendingar í fimmtán leikjum sínum með liðinu.
Zlatan Ibrahimovic maðurinn á bak við sigur AC Milan
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
