Ljóst er að Portúgal verður mótherji íslenska kvennalandsliðsins á Algarve Cup á miðvikudag. Liðin leika þá um níunda sætið á mótinu.
Íslenska liðið tapaði öllum þremur leikjum sínum í riðlakeppninni; gegn Bandaríkjunum, Svíþjóð og svo gegn Noregi í dag.
„Völlurinn var í mjög slæmu ásigkomulagi. Hann var illa farinn, mjúkur og allur í leðju. Það var ekki mikið um færi, þetta var stöðubarátta og lítið um flott spil enda aðstæður erfiðar," sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfari eftir 2-3 tapið gegn Noregi í dag. Nánar er rætt við Sigurð í Fréttablaðinu á morgun.