Fótbolti

Arigo Sacchi segir Zlatan Ibrahimovic að læra mannasiði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic fagnar öðru marka sinna í gær.
Zlatan Ibrahimovic fagnar öðru marka sinna í gær. Mynd/AP
Zlatan Ibrahimovic var fljótur að breytast úr hetju í skúrk í sjónvarpsþætti eftir 2-0 sigur AC Milan á Auxerre í Meistaradeildinni í gær en Svíinn skoraði bæði mörk AC Milan í leiknum.

Eftir leikinn grínaðist Arigo Sacchi, fyrrum þjálfari AC Milan og ítalska landsliðsins, með það að Ibrahimovic hefði ekki skorað fyrra markið nema af því að hann spilar í skóm númer 47.

Það fauk vel í Zlatan um leið og hann heyrði þetta. „Sacchi verður að læra það að halda kjafti," sagði Zlatan Ibrahimovic og sjokkeraði um leið alla í sjónvarpssalnum.

„Það er eins og hann sé öfundssjúkur út í mig því hann er alltaf að tala um mig. Hann þarf að tala minna um mig í sjónvarpinu og í blöðunum. Ef hann þarf að segja eitthvað við mig þá getur hann bara komið og hitt mig," sagði Zlatan öskureiður og beindi síðan orðum sínum beint til Arigo Sacchi.

„Ef þér líkar ekki við hvernig ég spila þá slepptu því að koma og horfa á mig," sagði Zlatan og það dugði lítið þótt að umsjónarmaður þáttarins reyndi að skýra það út að að Arigo Sacchi hafi ekki verið að gagnrýna hann.

„Hann sagði líka hluti um mig þegar ég var hjá Barcelona," sagði Zlatan.

„Ég á nú að geta tjáð mína skoðun ef ég geri kurteislega og á réttan hátt. Ég trúi því varla að ég hafi móðgað þig," sagði Sacchi.

„Þegar sumt fólk talar of mikið þá talar það of mikið. Þú ert einn af þessu fólki. Ef þér líkar ekki við hvernig ég spila slepptu því þá að koma og horfa á mig," endurtók Zlatan.

„Leyfðu mér að útskýra," byrjaði Sacchi en Zlatan stoppaði hann strax. „Þú þarf ekki að útskýra neitt fyrir mér," sagði Zlatan áður en ítalski þjálfarinn endaði rifildið á því að segja: „Þú þarf að læra mannasiði sonur góður."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×