Martröð Rafa Benítez og lærisveina í Inter heldur áfram að versna. Liðið tapaði 2-1 fyrir Chievo í dag og er nú í sjötta sæti ítölsku deildarinnar, níu stigum á eftir erkifjendunum í AC Milan sem tróna á toppnum.
Samuel Eto'o minnkaði muninn fyrir Inter undir lokin en hann hefði þá ekki átt að vera inni á vellinum.
Á 38. mínútu leiksins skallaði Eto'o leikmann Chievo, Cesar, harkalega í bringuna. Keimlíkt atvikinu fræga þegar Zinedine Zidane skallaði Marco Materazzi í úrslitaleik HM.
Dómaratríóið tók ekki eftir þessu atviki og Eto'o slapp því við rauða spjaldið. Skallinn náðist hinsvegar á myndband og líklegt að Kamerúninn verði dæmdur í langt leikbann þegar aganefndin kemur saman.
Smelltu hér til að sjá myndband af atvikinu