Símafélag í Búlgaríu hefur lokað fyrir símanúmerið 888 888 888. Ástæðan er einföld. Þrír áskrifendur hafa verið að þessu númeri og þeir hafa allir látist. Með mismunandi vofveiflegum hætti.
Sá fyrsti sem fékk þetta númer var Vladimir Grashnov sem var forstjóri símafyrirtækisins Mobitel. Hann lést 48 ára að aldri. Orðrómur var á kreiki um að keppinautur hefði eitrað fyrir honum.
Næstur var mafíuforinginn Konstantin Dimitrov. Leigumorðingi skaut hann til bana þegar hann var í heimsókn í Hollandi. Talið er að rússneska mafían hafi staðið að baki morðinu.
Þriðji í röðinni var fasteignasalinn Konstantin Dishliev sem einnig stundaði umfangsmikla kókaínsölu.
Hann var skotinn til bana á veitingahúsi í Sofiu höfuðborg Búlgaríu árið 2005.
Breska blaðið Daily Mail hafði samband við símafyrirtækið til þess að leita frekari upplýsinga.
Honum var svarað; -Við höfum ekkert um þetta að segja. Við tjáum okkur ekki um einstök símanúmer.