Ryan Babel er ekki á leiðinni til þýska liðsins Bayern Munchen á sex mánaða lánsamningi eins og skrifað var um í ensku blöðunum. Bayern hefur engan áhuga á því að fá Hollendinginn til Munchen.
„Ég get fullvissað ykkur um það að við höfum ekki áhuga á að fá Babel til Munchen. Ég veit allt um slík félagsskipti hjá okkar félagi og það er ekkert í gangi," sagði Christian Nerlinger íþróttastjóri Bayern.
„Þetta hefur ekkert með hæfileika Babel að gera. Við höfum bara marga leikmenn í þessari stöðu og bæði Ivica Olic og Mario Gomez eru í frábæru formi. Við þurfum ekki annan sóknarmann," sagði Nerlinger við Liga Total.
Babel hefur verið stöðugt orðaður við brottför frá Anfield enda mjög óánægður með lítinn spilatíma hjá Liverpool.
