Drífa Snædal framkvæmdarstýra VG segist ekki sjá nein merki þess að Vinstrihreyfingin grænt framboð hafi nokkurn tímann þegið styrk frá Geira á Goldfinger eða fyrirtækjum tengdum honum. Geiri sagði í samtali við Vísi í morgun að hann hefði styrkt alla stjórnmálaflokkana fjárhagslega á síðustu árum.
Hann sagði að svo gæti verið að fyrirtæki hans Baltic hafi ekki styrkt alla flokka heldur hefði það geta farið í gegnum dótturfyrirtæki Baltic sem eru fjögur.
„Ef svo hefur verið er það vel falið af hans hálfu. Hann þarf að gera grein fyrir því og að sjálfsögðu ef eitthvað slíkt kemur í ljós verður það endurgreitt hið snarasta.," segir Drífa í samtali við Smuguna sem fjallar um málið í dag.
Drífa segir við Smuguna að sér hafa brugðið við frétt Vísis og hún hafi í kjölfarið farið í gegnum bókhaldið og talaði við fulltrúa í svæðisfélagi Vinstri grænna í Kópavogi.
„Það eina sem gæti hugsanlega verið vísað í var, að árið 2002 slæddist styrktarlína frá Baltic inn í svæðisblað Vinstri grænna í Kópavogi, en utanaðkomandi fyrirtæki sá um auglýsingasöfnun fyrir blaðið. Við þessu var brugðist með því að gefa fyrirtækinu þau skilaboð að ekki ætti að rukka fyrir þetta, þar sem ekki þótti eðlilegt að þiggja greiðslu frá þessu fyrirtæki þrátt fyrir þau mistök að hafa birt línuna."