Alþjóða knattspyrnusambandið hefur gefið út hvaða fimm leikmenn fengu flest atkvæði í kjöri landsliðsþjálfara og -fyrirliða á leikmanni ársins sem nú er að líða.
Athygli vekur að allir fimm leikmennirnir leika nú á Spáni - tveir með Real Madrid og þrír með Barcelona.
Leikmennirnir hjá Real voru þó keyptir til félagsins í sumar. Cristiano Ronaldo kom frá Manchester United og Brasilíumaðurinn Kaka frá AC Milan.
Hinir sem eru tilnefnir eru þeir Lionel Messi, Xavi og Andrés Iniesta - allir leikmenn Barcelona. Messi er Argentínumaður og hlaut á dögunum Gullknöttinn fyrir að vera kjörinn leikmaður ársins í Evrópu. Hann þykir líklegastur til að verða einnig efstur í kjöri FIFA.
Hjá konunum fengu þær Marta (Brasilíu), Cristiane (Brasilíu), Inka Grings (Þýskalandi), Birgit Prinz (Þýskalandi) og Kelly Smith (Englandi) flest atkvæði.
Niðurstaða kjörsins verður kynnt í Zürich í Sviss þann 21. desember næstkomandi.