Fótbolti

Trezeguet er ofdekrað barn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
David Trezeguet á æfingu með Juventus.
David Trezeguet á æfingu með Juventus. Nordic Photos / AFP

Claudio Ranieri, knattspyrnustjóri Juventus, hefur sent David Trezeguet tóninn fyrir að gagnrýna sig í frönskum fjölmiðlum eftir leikinn gegn Chelsea í Meistaradeildinni í vikunni.

Juventus og Chelsea gerðu 2-2 jafntefli sem dugði þeim síðarnefndu til að komast í fjórðungsúrslit keppninnar. Trezeguet, sem er 31 árs, gagnrýndi Ranieri eftir leikinn í samtali við L'Equipe fyrir að skipta sér út af.

„Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með ummæli hans," sagði Ranieri í samtali við ítalska fjölmiðla. „Svona ummæli eiga heima í búningsklefanum. En ef hann vill tjá sig í gegnum fjölmiðla mun ég gera slíkt hið sama."

„Mér finnst eins og hann hafi svikið mig og brugðist mér. Hann var ekki að spila vel og ég þurfti á öðrum leikmanni að halda."

„Trezeguet spilaði í 80 mínútur í mikilvægasta leik tímabilsins. Ég hef alltaf borið mikla virðingu fyrir honum en kannski er honum ekki sama sinnis. Það sem hann sagði var ótrúlegt - hann lét eins og ofdekrað barn."

Ranieri var þá spurður hvort Trezeguet vildi fara frá félaginu. „Hann sagðist vilja fara undir lok tímabilsins þegar félagið var í B-deildinni. En þá vildi enginn að hann færi."

„Við erum nú að reyna að endurbyggja lið okkar fyrir Evrópukeppnina. Við verðum að vinna með og fá leikmenn sem eru til í að taka þátt í því verkefni með okkur."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×