Fótbolti

Adriano verður ekki refsað fyrir að skora með hendi (myndband)

Adriano skoraði greinilega með hendinni
Adriano skoraði greinilega með hendinni NordicPhotos/GettyImages

Aganefnd ítölsku A-deildarinnar í knattspyrnu ætlar ekki að refsa framherjanum Adriano hjá Inter vegna marksins sem hann skoraði í grannaslagnum við AC Milan um helgina.

Brasilíumaðurinn skoraði fyrsta markið í 2-1 sigri meistara Inter á grönnum sínum og eins og sjá má hér hrökk boltinn greinilega af hönd hans og í netið eftir að hann skallaði knöttinn.

Aganefndin á Ítalíu hefði líklega dæmt framherjann í tveggja leikja bann ef hún hefði geta sannað að Adriano hefði skorað viljandi með hendinni.

Eftir að hafa skoðað myndband af markinu, tilkynnti nefndin hinsvegar að ekki væri hægt að sanna að um viljaverk hefði verið að ræða. Adriano var nýkominn úr þriggja leikja banni fyrir að slá til mótherja síns í 1-0 sigri á Sampdoria.

Fyrir tveimur árum lenti framherjinn Alberto Gilardino í svipuðu atviki þegar hann skoraði vafasamt mark fyrir Fiorentina, en hann var þá dæmdur í tveggja leikja bann.

Inter náði níu stiga forystu á toppi A-deildarinnar með sigrinum á grönnum sínum um helgina, en AC Milan er nú 11 stigum á eftir toppliðinu í töflunni og á litla möguleika á titlinum.

Massimo Moratti, forseti Inter, fullyrðir að Inter hefði unnið leikinn hvort sem markið hefði komið til eða ekki, en kollegi hans Adriano Galliani hjá Milan passaði sig að segja sem minnst.

"Ég hef lært það í gegn um tíðina að leyfa þeim sem vinna að tala og þegja þegar við töpum, en þeir sem hafa augu sjá..." sagði Galliani.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×