„Ég er eiginlega gáttaður á því hvað fjárhæðin er há. Maður hélt að þetta væri eitthvað sem gerðist ekki í íslenskum stjórnmálum," segir stjórnmálafræðingurinn Einar Már Þórðarson spurður út í risastyrki Landsbankans og FL Group til Sjálfstæðisflokksins.
Hann segir málið koma spánskt fyrir sjónir, þá ekki síst ábyrgðin sem Geir tekur, það er að segja að hann hafi eingöngu haft um þessa styrki að gera, þá sérstaklega sem fram kom í hádegisfréttum Bylgjunnar, að flokkurinn sjálfur sótti styrkinn til fyrirtækjanna.
„En þetta undirstrikar enn betur hvað það var óeðllegt að stjórnmálaflokkar höfðu bókhaldið sitt lokað," segir Einar Már. Hann segir það ánægjulegt að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ákveðið að opna bókhaldið aftur í tímann, þó séu svör Samfylkingarinnar loðin, og til þess fallinn að vekja upp tortryggni. En framkvæmdarstjóri flokksins sagðist ekki vilja opna fyrir bókhaldið í dag. Jóhanna Sigurðardóttir sagði hinsvegar í kvöld að bókhaldið yrði opnað.
„Þetta sýnir að stjórnmál og atvinnulíf hefur verið rosalega nátengt og ótrúlegt að svona háar upphæðir hafi verið á borðunum," segir Einar og bætir við að þessi umræða sé skaðleg fyrir alla stjórnmálaflokka, þá sérstaklega á tímum þar sem krafa er að allt sé uppi á borðum.