Fótbolti

Pavel Nedved er ákveðinn í að hætta í vor

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pavel Nedved á að baki glæsilegan feril á Ítalíu.
Pavel Nedved á að baki glæsilegan feril á Ítalíu. Mynd/GettyImages

Tékkinn Pavel Nedved er búinn að ákveða það að leggja skónna á hilluna í vor en hann hefur spilað stórt hlutverk hjá ítalska liðinu Juventus undanfarin átta ár.

"Ég hef enn gaman af því að spila en ég geri mér grein fyrir því að minn tími er kominn og yngri leikmenn verða að fá sín tækifæri," sagði Nedved í viðtali á heimasíðu UEFA.

"Kannski finnst ykkur ég vera ungur ennþá en ég er orðinn 37 ára. Ég er ákveðinn í að hætta í vor sama hvernig fer í Seríu A eða Meistaradeildinni," sagði Nedved en hann er ekkert alltof bjartsýnn að Juventus nái að vinna upp 1-0 forskot Chelsea í seinni leik liðanna í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

"Þetta voru ekki góð úrslit fyrir okkur en þetta er hvergi nærri búið. Það getur allt gerst í seinni leiknum en raunhæft mat þá eru 55% líkur á að Chelsea fari áfram. Þetta verður erfitt en ekki ómögulegt," sagði Nedved.

Juventus keypti Nedved frá Lazio árið 2001 en hann hefur spilað þrettán tímabili í ítölsku deildinni. Áður en hann kom til Lazio 1996 þá lék hann með Sparta Prag. Nedved lagði landsliðskónna á hilluna fyrir þremur árum en alls lék hann 91 landsleik fyrir Tékkland.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×