Sleggjukastarinn Bergur Ingi Pétursson úr FH skilaði fyrstu gullverðlaunum Íslands í hús á Smáþjóðaleikunum sem nú fara fram á Kýpur.
Kast Bergs Inga uppá 70,60 metra í fyrstu umferð sá til þess að hann var í fyrsta sæti í sleggjukastkeppninni og það með talsverðum yfirburðum því næstu menn á palli voru Kýpverjarnir Petros Sofianos með kast upp á 64,38 metra og Michael Kolokotronis með kast upp á 56,76 metra.
Bergur Ingi átti því raunar þrjú bestu köstin því hann kastaði einnig 69,47 metra í þriðju umferð og 65,51 metra í lokaumferðinni.