Hannes Þór Halldórsson, markvörður Fram, lék sinn fyrsta Evrópuleik í kvöld eins og flestir aðrir leikmenn Safamýrarliðsins. Hann var nokkuð sáttur við sigurinn en samt smá svekktur með að hann hafi ekki orðið stærri miðað við þróun leiksins.
„Auðvitað er ég ánægður með sigurinn. Við vissum ekkert út í hvað við vorum að fara en náðum að vinna leikinn sem er gott. Við hefðum getað fengið sterkari andstæðinga í þessari forkeppni og vorum klaufar að drepa þá ekki í þessum leik," sagði Hannes.
„Við erum reynslulitlir í Evrópukeppni og fundum taktinn eftir dapra byrjun. Við fundum það bara að við erum betra en þetta lið. Það tekur aðeins af sigurgleðinni að hafa ekki náð að bæta við fleiri mörkum þarna á lokakafla leiksins."
„Við fengum nokkur úrvalsfæri sem ekki nýttust en við bætum bara upp fyrir það í seinni leiknum á gervigrasinu. Við erum stærstan hluta ársins á gervigrasi svo við erum alveg sleipir á svellinu þar," sagði Hannes.