Fótbolti

Crespo búinn að gefast upp hjá Inter - samdi við Genoa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hernan Crespo er á leiðinni til Genoa-liðsins.
Hernan Crespo er á leiðinni til Genoa-liðsins. Mynd/AFP

Argentínumaðurinn Hernan Crespo, fyrrum leikmaður enska úrvalsdeildarliðsins Chelsea, hefur gefist upp á samkeppninni hjá ítölsku meisturunum í Internazionale og mun spila með Genoa á næsta tímabili.

Zlatan Ibrahimovic, Mario Balotelli og Adriano voru allir á undan Crespo í goggunarröðinni hjá Inter á tímabilinu og það hjálpaði ekki mikið þótt að Adriano færi heim til Brasilíu.

Enrico Preziosi, forseti Genoa, var himinlifandi með að hafa tryggt sér þjónustu þessa 33 ára argentínska framherja. „Þetta er mjög mikilvægt fyrir okkur og við erum mjög ánægð. Crespo er frábær leikmaður og við höfum fylgst með honum í langan tíma," sagði Preziosi.

Hernan Crespo hefur skorað 136 mörk í 276 í ítölsku deildinni fyrir Parma, Lazio AC Milan og Internazionale. Hann skoraði 10 mörk í 30 leikjum með Chelsea 2005-06.

Crespo er ekki eini leikmaður Inter sem gæti verið á leiðinni til Genoa því Preziosi sagði að stutt væri í að hann nældi einnig í Portúgalann Ricardo Quaresma.

Genoa-liðið var í baráttu um Meistaradeildarsæti í vetur en rétt missti af því á lokasprettinum. Það eru liðin 85 ár síðan liðið varð síðast meistari en Genoa vann ítalska meistaratitilinn níu sinnum frá 1898 til 1924.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×