Mike Phelan,aðstoðarþjálfari Manchester United hefur viðurkennt að félagið hafi áhuga á að kaupa Edin Dzeko, framherja þýska liðsins Wolfsburg, í janúar. Bosníumaðurinn hefur verið orðaður við mörg stórlið eftir frábæra frammistöðu í bundesligunni en hann er aðeins 23 ára gamall.
„Ég er viss um að mörg félög séu að skoða hann. Við erum alltaf að skoða hæfileikaríka menn svo við erum í þessum hópi. Hann sýndi okkur í leiknum á Old Trafford að þar er á ferðinni hávaxinn og leikinn leikmaður sem ætti að passa vel í ensku úrvalsdeildina," sagði Phelan við News of the World.
Manchester United mætir Wolfsburg í Meistaradeildinni á þriðjudagskvöldið og þar mun Phelan og félagar hjá United örugglega kanna hvaða möguleika þeir eiga að kaupa þennan snjalla framherja.
Edin Dzeko skoraði 26 mörk í 32 leikjum þegar Wolfsburg tryggði sér þýska meistaratitilinn og hefur skorað 3 mörk í 5 leikjum í Meistaradeildinni í vetur. Dzeko hefur skorað 6 mörk í 15 leikjum í þýsku deildinni í vetur.