Ítalska knattspyrnugoðsögnin Paulo di Canio sem áður lék m.a. með West Ham á Englandi, segir að ungir knattspyrnumenn í dag hafi það allt of gott.
Di Canio tekur undir það sem Frank Lampard sagði í blaðaviðtali fyrir skömmu þegar hann sagði unga atvinnumenn í dag skorta aga og hungur.
Hann minntist þess þegar ungir leikmenn voru látnir þrífa skó eldri leikmanna til að halda þeim niðri á jörðinni. Di Canio er sammála.
"Þetta hefur mikið með peningana í boltanum að gera," sagði Di Canio í samtali við tímaritið 4-4-2. "Ungir leikmenn missa kannski drifkraftinn þegar þeir eru komnir með milljónir í vikulaun og það er eðlilegt. Þegar menn eru 18 og 19 ára gamlir, hafa þeir nóg á sinni könnu hvort sem þeir eru með há laun eða ekki," sagði Di Canio.
Hann segir að frægðarljóminn yfir knattspyrnumönnum sé einnig að gera mönnum erfitt fyrir á Ítalíu.
"Það þykir skrítið ef þessir menn eru ekki úti að skemmta sér klukkan tvö á nóttinni, því þessir menn eru partur af frægðarelítunni. Svona er líf nútímaknattspyrnumannsins í kjölfar allrar þessarar fjölmiðlaathygli. Þetta var ekki svona þegar ég var að spila," sagði Di Canio.