Forráðamenn ítalska stórliðsins AC Milan eru vongóðir um að halda David Beckham lengur en þessa tvo mánuði sem lánssamningur hans segir til um. Beckham var í byrjunarliði AC Milan í 2-2 jafnteflisleik gegn Roma.
Mikil ánægja er með frammistöðu Beckham síðan hann kom til liðsins. „Hann gefur liðinu mikið og við erum ánægðir með hann. Við erum með hann á tveggja mánaða lánssamningi en allt er mögulegt og hann gæti verið lengur hjá okkur," sagði Leonardo, stjórnarmaður hjá AC Milan.
Beckham er samningsbundinn LA Galaxy í Bandaríkjunum eins og flestir vita. Tímabilið 2009 í MLS deildinni fer af stað 19. mars en LA Galaxy á fyrsta leik gegn DC United þann 22. mars.
„Við héldum að hann gæti bara leikið 45-60 mínútur en hann lék nánast allan leikinn og gerði góða hluti. Hann er í mjög góðu formi. Það er erfitt að leika gegn Roma í fyrsta leik en hann hljóp, varðist vel og barðist. Hann er fljótur að aðlagast," sagði Leonardo.
Milan er í þriðja sæti ítölsku deildarinnar, níu stigum á eftir Inter sem trjónir á toppnum.