Fótbolti

Mourinho: Ég er stoltur af sjálfum mér

Nordic Photos/Getty Images

Jose Mourinho þjálfari Inter segist hvergi nærri hættur þó hann hafi mátt þola eina erfiðustu viku sína síðan hann tók við liðinu.

Mourinho hefur verið kallaður inn á teppið hjá knattspyrnusambandinu fyrir groddalegar yfirlýsingar sínar í fjölmiðlum. Hann ætlar þó ekki að slá af frekar en venjulega og segir verkefni sínu ekki lokið.

"Maður veit aldrei í fótboltanum. Ég gæti verið hér í tvö ár í viðbót, þrjú, fjögur eða fimm. Það fer eftir ýmsu," sagði Mourinho á blaðamannafundi í dag þegar hann var spurður hvort hann hefði hugleitt að hætta vegna pressu á Ítalíu.

"Ég er samt ekki hérna til að leggja grunninn fyrir annan þjálfara. Það er ekki hægt að segja að ég sé reiður. Stolt er rétta orðið. Ég er stoltur. Af sjálfum mér," sagði Mourinho.

Inter gerði 3-3 jafntefli við Roma í hörkuleik um síðustu helgi og steinlá svo 3-0 fyrir Sampdoria í bikarnum í miðri viku. Næsti leikur í deildinni er gegn Genoa á morgun og svo bíður síðari leikurinn við Manchester United í Meistaradeildinni í næstu viku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×