Fótbolti

Mourinho: Myndi finna nýtt starf á viku ef ég yrði rekinn

Ómar Þorgeirsson skrifar
José Mourinho.
José Mourinho. Nordic photos/AFP

Knattspyrnustjórinn málglaði José Mourinho hjá Inter er ekki smeykur yfir sögusögnum þess efnis að starf hans hangi á bláþræði.

Inter er með sjö stiga forskot á toppi ítölsku deildarinnar en hefur ekki þótt vera sannfærandi í Meistaradeildinni og tapaði illa gegn Barcelona á dögunum.

Mourinho er hins vegar jafnan með svör á reiðum höndum þegar skotið er á hann og beindi að þessu sinni gagnrýninni að helsti keppinautum Inter, AC Milan og Juventus.

„Var það slæmt fyrir ítalskan fótbolta að tapa fyrir Barcelona á útivelli? Jú, líklega var það slæmt en alla vega ekki jafn slæmt og að tapa gegn Bordeaux eða FC Zurich á heimavelli.

Ég hef lesið í dagblöðunum að forráðamenn Inter séu þegar búnir að finna eftirmann minn en ég hef engar áhyggjur af því. Fari svo að ég verði rekinn þá myndi ég finna nýtt starf á viku," sagði Mourinho í viðtali við ítalska fjölmiðla í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×