Fabio Capello, landsliðsþjálfari Englands, mun verða viðstaddur leik AC Milan og Genoa á morgun. Hann ætlar að fylgjast með David Beckham en England leikur vináttulandsleik við Spán þann 11. febrúar.
Hinn 33 ára Beckham hefur slegið í gegn á Ítalíu og byrjað alla þrjá leiki AC Milan þegar hann hefur verið heill. Forráðamenn AC Milan hafa lýst því yfir að þeir vilji kaupa Beckham alfarið frá LA Galaxy.
Ef Beckham leikur með enska landsliðinu gegn Spáni þá jafnar hann met sem Bobby Moore á en hann lék 108 landsleiki fyrir England sem útispilari.