Tenniskappinn Andy Murray er vongóður fyrir keppni á Opna bandaríska meistaramótinu í tennis sem hefst í dag en hann er sem stendur í öðru sæti á heimslista tennisspilara.
Svisslendingurinn Roger Federer er í efsta sæti á styrkleikalistanum en Federer og Murray mættust einmitt í úrslitaleik opna bandaríska meistaramótsins í fyrra og þá hafði Federer betur.
Murray hefur aldrei unnið „Grand Slam" mót en það eru fjögur stærstu mót ársins í tennis, opna bandaríska meistaramótið, opna ástralska meistaramótið, opna franska meistaramótið og Wimbledon mótið.
En Federer og Spánverjinn Rafael Nadal hafa til þessa verið helstu stórgrýtin í vegi fyrir Murray til þessa en Skotinn segir að erkifjendur sínir hafi í raun hjálpað sér mikið frekar en hitt.
„Að vinna „Grand Slam" mót er mjög erfitt en eitthvað sem ég stefni á að ná að gera einhvern tímann á ferlinum. Ég er annars að spila miklu betur núna en í fyrra og leikur minn er orðinn mun stöðugri en áður.
Federer og Nadal hafa í raun þvingað mig til þess að verða betri og bæta leik minn á allan hátt. Mér finnst ég því ekkert vera óheppinn að vera uppi á sama tíma og þeir og þurfa að mæta þeim heldur er ég bara þakklátur fyrir að keppa við bestu tennisspilara í heimi," segir Murray í viðtali við Sky Sports fréttastofuna.