Roger Federer tryggði sér í morgun sæti í úrslitum einliðaleiks karla á opna ástralska meistaramótinu í tennis eftir sigur á Andy Roddick í undanúrslitunum.
Federer tapaði ekki setti í viðureigninni sem var þó spennandi. Federer vann fyrsta settið örugglega, 6-2, en hin tvö með sama mun, 7-5 og 7-5.
Í báðum síðari settunum náði Federer að vinna uppgjöf af Roddick í stöðunni 5-5 og en Federer tapaði sjálfur aldrei uppgjöf í viðureigninni.
Roddick sýndi á köflum afar öflugua frammistöðu en á endanum reyndist Federer einfaldlega of sterkur. Hann er nú kominn í úrslit stórmóts í fjórtánda sinn af síðustu fimmtán mótum sem er ótrúlegur árangur.
Federer getur unnið sinn fjórtánda titil á stórmóti með því að vinna annað hvort Rafael Nadal eða Fernando Verdasco frá Spáni sem mætast í síðari undanúrslitaviðureigninni í fyrramálið.
Nadal er sem stendur í efsta sæti styrkleikalista Alþjóða tennissambandsins en Verdasco er að keppa í fyrsta sinn í undanúrslitum á stórmóti.