Knattspyrnustjórinn Leonardo hjá AC Milan vonast til þess að landi sinn Ronaldinho stígi upp og sýni sitt rétta andlit með ítalska félaginu á komandi keppnistímabili.
Eftir söluna á Kaka til Real Madrid er ljóst að meiri ábyrgð færist á herðar Ronaldinho og honum er ætlað enn stærra hlutverk í liðinu en á síðusta keppnistímabili og Leonardo er fullviss um að leikmaðurinn muni axla þá ábyrgð.
„Hann er að komast í sitt gamla form og þetta er rétti tíminn fyrir hann að láta til sín taka fyrir AC Milan og brasilíska landsliðið. Það var hrein unun að fylgjast með honum á æfingu í dag [í gær]," segir Leonardo í samtali við ítalska fjölmiðla.
Keppinstímabilið í Serie A-deildinni hefst í kvöld með tveimur leikjum þegar AC Milan heimsækir Siena og Bologna fær Fiorentina í heimsókn.