Fótbolti

City-mennirnir sáu um Ítalíu

Elvar Geir Magnússon skrifar
Robinho fagnar marki sínu.
Robinho fagnar marki sínu.

Brasilía og Ítalía áttust við í vináttulandsleik á Emirates-vellinum í Lundúnum í kvöld. Þessar sigursælu þjóðir höfðu ekki mæst í landsleik síðan 1997 þegar kom að leiknum í kvöld.

Brasilía vann leikinn 2-0 með mörkum frá Elano og Robinho sem spila saman með Manchester City í ensku úrvalsdeildinni. Fabio Grosso náði að skora fyrir Ítalíu en það mark var ranglega dæmt af þar sem aðstoðardómarinn taldi um rangstöðu að ræða.

Í byrjunarliði Brasilíu voru sex leikmenn sem leika í ítölsku A-deildinni. Liðið stöðvaði sigurgöngu ítalska liðsins undir stjórn Marcello Lippi sem getur ekki verið ánægður með varnarleik ítalska liðsins sem var ekki traustur í kvöld. Ítalía hafði leikið 31 leik í röð undir stjórn Lippi án þess að bíða ósigurs en það er ítalskt met sem Lippi deilir með Vittorio Pozzo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×