Zlatan Ibrahimovic tókst ekki að setja nýtt félagsmet þegar Barcelona vann 1-0 sigur á Almeria á heimavelli í spænsku úrvalsdeildinni í kvöld. Barcelona hefur þar með unnið sex fyrstu deildarleiki sína á tímabilinu en Zlatan hafði fyrir kvöldið í kvöld skorað í öllum deildarleikjum liðsins.
Það var Pedro Rodriguez sem skoraði sigurmarkið á glæsilegan hátt á 31. mínútu leiksins þegar hann snéri sér eldsnöggt í teignum og afgreiddi boltann upp í fjærskeytin.
Barcelona náði með þessum sigri þriggja stiga forskoti á Real Madrid sem á leik inni á móti Sevilla á morgun. Barcelona hefur unnið leikina sína sex með markatölunni 17-3.