Frjálsíþróttadeild Íþróttafélags Reykjavíkur hefur sett af stað metnaðarfullt afreksprógramm þar sem markmiðið er að þrír frjálsíþróttamenn úr röðum ÍR skipi Ólympíulið Íslands í London árið 2012 en það ár eru 100 ár liðin síðan ÍR átti fyrst keppanda á Ólympíuleikum í frjálsíþróttum.
Þetta kemur fram í Fréttatilkynningu frá Fríðu Rún Þórðardóttur, framkvæmdastjóra ÍR-OL2012 afreksprógrammsins. „Það þarf heilt þorp til að ala upp barn ....og heilt frjálsíþróttafélag til að búa til Ólympíufara, það þarf mikla vinnu & samstöðu til að búa til Ólympíuverðlaunahafa.Við munum byggja á þessum gildum," segir Fríða.
„Þetta afreksprógramm er sjálfsögð viðbót við starf okkar hingað til og felur í sér skipulagt ferli þar sem hágæðaþjálfun á afreksfólki okkar, úr hendi vel menntaðra og reyndra þjálfara, fer saman með faglegri samvinnu við aðra fagaðila, " segir Fríða í tilkynningunni.