Skötuhjúin Tom Brady, leikstjórnandi New England Patriots, og ofurmódelið Gisele giftu sig aftur á Costa Rica síðasta laugardag. Um 50 gestir mættu í athöfnina á rómantískum stað.
Franska fréttastofan Agence France-Presse greindi frá því að einn ljósmyndara þeirra hefði lent í skothríð eins lífvarða parsins.
Ljósmyndarinn neitaði að afhenda vélina sína og þá skaut lífvörðurinn í bíl hans á meðan ljósmyndarinn var í bílnum. Hann slapp ómeiddur og kærði atvikið.
Umboðsmaður Brady sagðist ekki þekkja til atviksins.
Athygli vekur að parið hafi verið að gifta sig aftur en greint var frá því í febrúar að þau hefðu gift sig í Bandaríkjunum.