Adriano Galliani varaforseti AC Milan segir að samningaviðræður félagsins við LA Galaxy um kaup á enska landsliðsmanninum David Beckham gangi vel.
Fréttasíður í Bandaríkjunum hafa ekkert nýtt að segja um málið og fullyrða enn að Beckham snúi aftur til Los Angeles að lánstímanum og ekkert verði úr kaupum ítalska félagsins, því það hafi ekki verið tilbúið að borga nóg fyrir hann.
Ítalska blaðið Gazzetta Dello Sport hermir að stuðningsmenn LA Galaxy séu margir hverjir búnir að fá nóg af sápuóperunni í kring um Beckham og vilji hann einfaldlega burt. Einhverjir þeirra munu þó kjósa að fá hann aftur í MLS deildina.
Ef frekari óánægju fer að gæta meðal stuðningsmanna Galaxy má ætla að það gæti bætt samningsstöðu Milan, sem virðist staðráðið í að krækja í Beckham.