Fótbolti

Gattuso gæti gert það gott á Englandi - Orðaður við Chelsea

Ómar Þorgeirsson skrifar
Gennaro Gattuso.
Gennaro Gattuso. Nordic photos/Getty images

Umboðsmaður miðjumannsins Gennaro Gattuso hjá AC Milan segir leikmanninn hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum þegar knattspyrnustjórinn Carlo Ancelotti yfirgaf AC Milan á dögunum og tók við Chelsea.

Hann segir Gattuso jafnframt hafa það sem þurfi til þess að gera það gott á Englandi ef til þess kæmi.

„Samband Gattuso og Ancelotti var sérstakt og hann var miður sín þegar knattspyrnustjórinn hvaddi AC Milan. Hann hefur alltaf litið mjög upp til Ancelotti og verið afar ánægður með að spila undir hans stjórn. Ef til þess kæmi þá væri Gattuso sniðinn að ensku úrvalsdeildinni og myndi pottþétt finna sig vel þar," segir Andrea D'Amico umboðsmaður Gattuso í samtali við The Sun.

Hinn 31 árs gamli Gattuso er þekktur fyrir mikla vinnusemi og harðar tæklingar sem hafa sér í lagi verið eftirtektarverðar í ítalska boltanum sem er ekki jafn líkamlega krefjandi og enski boltinn heldur ef til vill taktískari.

Það hefur eflaust mótað Gattuso talsvert að hafa leikið eitt tímabil með Rangers í skosku úrvalsdeildinni en eiginkona leikmannsins er einmitt skosk.

Tengsli hans við Bretland hafa líka orðið til þess að hann er orðaður við félög þar á hverju einasta sumri og þetta sumar er engin undantekning þar á. Chelsea er sagt vilja kaupa hann.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×