Leonardo, þjálfari AC Milan, stendur frammi fyrir erfiðri ákvörðun fyrir leik liðsins á móti Bologna í ítölsku deildinni á sunnudaginn. Hann þarf að ákveða það hvort að Ronaldinho verði áfram á varamannabekknum.
Ronaldinho spilaði mjög vel í fyrsta leik tímabilsins þegar AC Milan vann 4-0 sigur á Siena en gat síðan ekkert í 0-4 tapi á móti Inter eða í markalausu jafntefli á móti Livorno.
Leonardo setti landa sinn þá á bekkinn fyrir leikinn á móti Olympique Marseille í Meistaradeildinni í vikunni. Clarence Seedorf, sem kom inn fyrir hann, lagði upp bæði mörkin fyrir Filippo Inzaghi í 2-1 sigri.
Það fór ekki vel í Ronaldinho á síðasta tímabili þegar hann missti sæti sitt hjá Carlo Ancelotti og var eins og hann missti allt sjálfstraust við það. Það verður því athyglisvert hvernig Leonardo ætlar að reyna að fá Ronaldinho til að sýna sínar bestu hliðar á nýjan leik.