„Ég er ánægður með okkar frammistöðu þó við hefðum mátt nýta færin betur," sagði Rúrik Gíslason sem lék sinn fyrsta byrjunarliðsleik með íslenska landsliðinu í kvöld þegar það gerði 1-1 jafntefli gegn Noregi.
„Sanngjörn úrslit hefðu verið 3-1 eða 4-1. Mér fannst við töluvert sterkari en þeir. Þeir leggja bara upp með þessa löngu bolta á stóra framherjan. Við spiluðum ágætlega í dag en getum alveg gert betur og ef við nýtum færin betur þá erum við flott lið."
Rúrik var sáttur við eigin frammistöðu. „Ég er með bullandi sjálfstraust og það er gaman að koma inn í þetta. Það er samt drullusvekkjandi að vinna ekki miðað við frammistöðu liðsins í dag," sagði Rúrik sem hefur fengið mikið lof fyrir framgöngu sína með OB í Danmörku.
„Ég tek þessu öllu með ró. Ég er enn að bæta mig og á fullt inni finnst mér. Ég legg mig mikið fram á æfingum og ég ætla að halda áfram að bæta mig hrikalega mikið."