44. Bikarkeppni Frjálsíþróttasambands Íslands fer fram á Laugardalsvellinum um helgina og það er búist við spennandi keppni um bikarmeistaratitilinn en FH-ingar hafa unnið bikarinn fimmtán ár í röð eða allar götur síðan 1994.
Sex lið eru skráð til keppni í 1. deild og mun spennan vera mikil milli efstu liða. Í fyrra sigraði FH í öllum flokkum, en ÍR sem er mótshaldari í ár kemur öflugt til leiks og ætlar sér örugglega að enda fimmtán ára sigurgöngu FH og vinna sinn fyrsta bikar í 20 ár.
Það verður einnig mjög spennandi að fylgast með nýju sameinuðu liði Norðurlands, en þar leiða hesta sína saman UMSS, UMSE, UFA og HSÞ.
Auk FH, ÍR og Norðurlands munu Breiðablik, HSK og sameiginlegt lið Ármanns og Fjölnis keppa í 1. deild bikarkeppninnar að þessu sinni.
Flestir bikarmeistaratitlar frá upphafi:
FH 18 (síðast 2009)
ÍR 17 (1989)
KR 5 (1970)
HSK 2 (1993)
UMSK 1 (1971)
Flestir sigrar í karlaflokki
FH 19
ÍR 14
KR 1
Breiðablik 1
Flestir sigrar í kvennaflokki
ÍR 12
FH 11
Ármann 7
HSK 6