Litháinn Tomas Malakauskas, sem var dæmdur í líkfundarmálinu á Neskaupstað árið 2005, er snúinn aftur til Íslands. Hann var gripinn í Leifsstöð þegar hann kom hingað til lands frá Danmörku 25. september.
Tomas var í vitorði með þeim Grétari Sigurðssyni og Jónasi Inga Ragnarssyni í líkfundarmálinu svokallaða. Tomas hlaut þá hátt í þriggja ára fangelsi fyrir illa meðferð á líki og fíkniefnabrot.
Þá má reyndar geta þess að félagi hans, Jónas Ingi, hlaut tíu ára fangelsisdóm í gær vegna amfetamínverksmiðju sem hann starfrækti í Hafnarfirði.
Tomas kom einnig hingað til lands árið 2007 en hann á konu og barn á Íslandi. Tomas hefur verið dæmdur í endurkomubann til tíu ára.
Nú rauf hann endurkomubannið og hefur verið dæmdur í gæsluvarðhald til 9. október. Hann var dæmdur í 16 mánaða fangelsi árið 2007 fyrir að rjúfa endurkomubannið.
Í úrskurði Hæstaréttar Íslands segir að verulegar líkur séu á því að Tomas reyni að koma sér hjá refsingu þrátt fyrir að eiga fjölskyldu hér á landi. Því nægir farbann ekki eitt og sér.
Tomas komst til Íslands árið 2007 sökum þess að hann breytti nafni sínu í Tomas Arlauskas. Hann má búast við því að verða ákærður fyrir að rjúfa endurkomubannið.