Faðir og umboðsmaður brasilíska miðjumannsins Diego hjá Werder Bremen hefur mikinn hug á að koma drengnum í raðir Juventus á Ítalíu. Hann segir Diego langa að spila fyrir ítalska félagið.
"Digeo vill fara til Juventus og hann myndi vinna gullknöttinn ef hann klæddist treyju Juventus," sagði faðir hans í samtali við Tuttosport.
"Það er gaman að vita að stuðningsmenn Juventus hafa mikið dálæti á honum og ég yrði ánægður ef félaginu tækist að semja við Werder Bremen. Son minn dreymir um að spila með liði sem nær árangri í Evrópukeppni," sagði umboðsmaðurinn.
Hann segir að Juventus verði að hafa hraðar hendur, því mikill áhugi sé fyrir kröftum Diego, sem valinn hefur verið besti leikmaður þýsku úrvalsdeildarinnar.
"Það er mikill áhugi á honum, sérstaklega á Englandi og á Spáni," sagði stoltur faðir knattspyrnumannsins.